UNDANFARIN misseri hafa ýmsir þjóðfélagshópar sameinast í óánægju sinni í garð íslenskra valdhafa. Ólíkt því sem áður var beinist óánægjan í dag ekki eingöngu gegn stefnu stjórnvalda í efnahagsmálum, heldur að þeirri brotalöm sem hefur orðið á lýðræðislegri hefð Íslendinga, ævafornri virðingu landans fyrir náttúrunnar helgi og ræktun friðsællar utanríkisstefnu. Á meðan fjármálasnillingar auka vegferð eyjunnar okkar úti í löndum, semur stjórnin af sér landsins gæði og mannréttindi. Stjórnarandstaðan lofar bót og betrun í næstu kosningum en getur ekki einu sinni komið sér saman um grundvallarpólitík, hvað þá að hún sé tilbúin að mynda trausta samstarfsstjórn ef hún vinnur meirihluta í næstu alþingiskosningum. Í hugum flestra landsmanna eru fyrirbærin vinstri, hægri úrelt. Almenningur er orðinn leiður á hugmyndavesæld gömlu flokkapólitíkusanna og bindur vonir við myndun nýs afls í pólitík. Afls sem stefnir að því að tryggja og rækta á lifandi hátt hin varanlegu gæði landsins, eins og frelsi, lýðræði, menntun, fjölskyldu- og vináttutengsl, hreina náttúru, samkennd, gefandi sköpun á öllum sviðum, og loks sameiginlega uppbyggingu einstaklinga og samfélags. Gamla hugmyndafræðin, sem flokkarnir byggja enn alltof mikið á, skiptu þjóðfélaginu í efnishyggjumenn, eða kapítalista sem hugsuðu fyrst um að græða, kommúnista eða fátæka hugsjónamenn og loks alþýðufólk, verkamenn, ríkisstarfsfólk m.a. Síðasta hópnum tilheyrði meðalmaðurinn, sem vann bak við tjöldin, en skapaði mestu tekjur þjóðfélagsins. Í dag eru þessi viðmið löngu úrelt. Flestir listamenn þurfa að hafa viðskiptavit til að koma list sinni á framfæri. Auðmenn standa endalaust frammi fyrir mýmörgum fjárfestingarkostum og margir eru eða verða á endanum miklir hugsjónamenn sem fjárfesta í listum, menningu og vísindum. Afgangurinn er alls konar fólk, fólk sem hefur eða hefur ekki áhuga á peningum, þó flestir þurfi að vinna fyrir sér. Nú þykir ekki lengur neitt markvert að vera myndlistarmaður sem tekur þátt í hlutabréfakaupum, eða hlutabréfasérfræðingur sem gefur sig að umhverfismálum. Þetta er nýi tíminn: Fólk getur verið á ýmsum sviðum samtímis og haft áhuga á ólíkum málefnum, án þess að það dragi úr heilindum þess og siðferðiskennd. Möguleikar nútímans og margbreytileiki eru endalausir. En til að margbreytileikinn sem hér um ræðir fái blómstrað í hinu nýja samfélagi okkar, þurfa stjórnvöld að fylgjast betur með skoðanamyndun almennings og almenningur að veita ákvörðunartöku stjórnvalda meira aðhald en hingað til. Það er t.d. með öllu óviðunandi að stjórnvöld geti tekið mikilvægar ákvarðanir í trássi við stóran hluta almennings, þó þau hafi tryggt fjárhagslega afkomu hans. Það á að vera liðin tíð að hægt sé að kaupa þögn almennings með brauðinu einu saman. Nútíminn gerir ríkari kröfur. Íslendingar þurfa að búa svo um hnútana að ævinlega sé unnt að taka lýðræðislegar ákvarðanir í sátt við vilja almennings svo til fyrirmyndar sé, hér sem erlendis. Þrátt fyrir ótölulegan fjölda flokka og samtaka um hin og þessi mál virðast 80% þjóðarinnar vera sammála um helstu málefni. Þau þrá frelsi um leið og þau vilja standa vörð um samfélagslega velferð, virða náttúru landsins og stuðla að friði í heiminum. Þau eru með öðrum orðum andstæð Kárahnjúkavirkjun og Íraksstríði, þó þau kunni að meta efnahagslegan stöðugleika ofar öðru. Gallinn er sá að flestir eru svo uppteknir af lifibrauðinu að þeir hafa ekki orku til að gefa sig að stjórnmálum. Af þeim sökum grúfir yfir höfðum okkar allra óhjákvæmileg útkoma hins ofuruppsafnaða valds: Stjórnmálaleg spilling og stöðnun flokka sem hafa keimlíka stefnuskrá en vilja ekkert leggja undir fyrir hagsmuni þjóðfélagsins. Í þessu hugmyndafræðilega svartnætti má þó greina nokkur vonarljós. Í fyrsta sinn í stjórnmálasögu landsins bindast æ fleiri kjósendur þverpólitískum samtökum. Sameiginlegt markmið þeirra er að tryggja varanleg gæði landsins, umhverfi og náttúru, bæta lýðræðið, tryggja hag þeirra sem hafa byggt upp landið og sem minna mega sín og þróa nútímalegri stjórnarhætti. Þessi öfl eru: Þjóðarhreyfing um lýðræðið, Framtíðarlandið, Framboð aldraðra og öryrkja og Höfuðborgarsamtökin. Hér má og bæta við hugsjónafyrirbæri Ómars Ragnarssonar, sem varð til upp úr svipuðum jarðvegi og Framtíðarlandið og ef til vill nýr armur Frjálslynda flokksins sem styður Margréti Sverrisdóttur.
Eina von hins "frústrerandi" kjósanda, er að þessi nýju öfl nái völdum undir breiðfylkingu nýrrar kynslóðar, sem leyfir hugsjónamönnum og fjármálasnillingum að vinna saman, listamönnum og sjómönnum, verkamönnum og menntamönnum, ruslaköllum og forstjórum, öllum sem einum, til að tryggja ríkidæmi Íslands í orðsins fyllstu og dýpstu merkingu. Best væri ef allar þessar hreyfingar gætu sameinast undir einn hatt regnhlífarsamtaka sem hótuðu því að fella stjórnina, öðlast oddaaðstöðu við myndun næstu ríkisstjórnar og verða um leið vísir að stærsta stjórnmálaafli landsins. Með þeim hætti yrði fyrst tekið mark á gagnrýni þeirra og stigið fyrsta stóra skrefið til lýðræðislegra umbóta í landinu – með pottþétta baktryggingu í varanlegum gæðum landsins!
Höfundur er bæði listamaður og framkvæmdastjóri Lafleur-útgáfunnar.
Athugasemdir
Góðar hugleiðingar hjá þér og spegla held ég hugsanir margs kjósandans sem þarf að hlusta á dægurþrasið í frambjóðendum þessa dagana.
Björn Barkarson, 11.4.2007 kl. 12:28
Þetta er allt í mínum anda Benedikt eins og við höfum áður rætt. Vandinn er að leiðandi persónur í leikritinu eru of sjálfmiðaðar og það útilokar drauminn um samstöðuna a.m.k. í bili.
Haukur Nikulásson, 15.4.2007 kl. 11:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning